10 September 2010 12:00
Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Reykjavík á þriðja tímanum í nótt en báðir höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Um var að ræða tvo karla, annar er rúmlega tvítugur en hinn um þrítugt. Í bíl þess eldri fannst jafnframt GPS-tæki sem grunur leikur á að sé illa fengið. Um miðjan dag í gær var tilkynnt um ölvaðan ökumann sem hafði ekið á tvær kyrrstæðar bifreiðar í austurborginni. Maðurinn, karl um sextugt, var fluttur á lögreglustöð en hann var undir áhrifum lyfja og með öllu ófær um að stjórna ökutæki. Þá var rúmlega fimmtugur karl tekinn fyrir ölvunarakstur í morgun en sá var stöðvaður í Hafnarfirði.