8 Mars 2007 12:00
Ökumenn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvar fyrir umferðarlagabrot bregðast við með ýmsum hætti. Flestir játa brot sitt strax en aðrir reyna að malda í móinn. Dæmi um það síðarnefnda er kona á fertugsaldri sem var stöðvuð í nágrenni við grunnskóla í gærmorgun. Hún var að aka syni sínum, sem er 11 ára, í skólann en lögreglumenn stöðvuðu för þeirra sökum þess að sonurinn var ekki með bílbelti. Konan tók afskiptunum frekar illa og fannst þau nánast óþörf en féllst síðan á að það væri syninum fyrir bestu að vera með bílbelti. Svo ótrúlega vildi svo til að sama kona var aftur stöðvuð af öðrum lögreglumönnum aðeins nokkrum klukkutímum síðar. Þá sat hún undir stýri í umferðinni og var að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Ekki fer neinum sögum af viðbrögðum hennar í það skiptið en fyrir gærdaginn hafði þessi umrædda kona aldrei komið við sögu hjá lögreglu.
Hálffertugur karlmaður, sem var tekinn fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær, brást ókvæða við afskiptum lögreglu. Hann var beðinn um að setjast inn í lögreglubílinn til að gera grein fyrir sér og framvísa ökuskírteini enda hentaði veðufar á vettvangi illa til slíkra verka utandyra. Því neitaði maðurinn og sagði það útilokað nema að til þess kæmi að hann yrði fyrst handtekinn. Til þess kom þó ekki og maðurinn veitti umbeðnar upplýsingar með semingi en þess má geta að hann hefur nokkrum sinnum áður verið staðinn að umferðarlagabrotum.
Loks kom karlmaður á lögreglustöð í gær og var mjög ósáttur. Ástæðan var sú að lögreglumenn höfðu kyrrsett ökutæki á hans vegum. Um var að ræða flutningabifreið þar sem frágangur á farmi var ekki boðlegur og beinlínis hættulegur. Manninum var bent á reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms. Hann kynnti sér hana og yfirgaf síðan lögreglustöðina þokkalegur sáttur.