5 Apríl 2018 17:47

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í fyrrakvöld afskipti af fimmtán ára stúlku í annarlegu ástandi og var hún í framhaldinu færð á lögreglustöð, en þangað voru jafnframt strax boðaðir bæði forráðamaður hennar og fulltrúi barnaverndar. Vegna ástands stúlkunnar og hegðunar þurfti að finna henni viðeigandi samastað, en þrátt fyrir eindreginn vilja þar um reyndist ekki unnt að koma stúlkunni í viðeigandi úrræði. Aðstæður voru þannig að ekki var hægt að senda stúlkuna til síns heima og ekki var pláss fyrir hana í neinu af vistunarúrræðum á vegum barnaverndaryfirvalda. Til að tryggja öryggi og návist stúlkunnar var því tekin sú ákvörðun sem neyðarúrræði að vista hana í opnum fangaklefa með myndavélaeftirliti. Stúlkan gisti því á lögreglustöð í eina nótt og fór svo þaðan í gærmorgun í fylgd forráðamanns og fulltrúa barnaverndaryfirvalda, sem vinna frekar með mál hennar. Sem betur fer heyrir tilvik sem þetta til algjörrar undantekningar enda öllum ljóst að ekki er heppilegt að vista börn í fangageymslu lögreglu og er óskandi að mál sem þetta komi ekki upp aftur.