15 Apríl 2008 12:00

Pólskur karlmaður, sem er grunaður um aðild að manndrápi og er eftirlýstur í heimalandi sínu, var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 6. maí í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Maðurinn var handtekinn í gær eftir að beiðni um handtöku hans barst frá pólskum yfirvöldum. Þess má geta að framsalsmál eru afgreidd á milli dómsmálaráðuneyta viðkomandi landa. Um framsal sakamanna er að finna frekari upplýsingar hér að neðan.

Í lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum má m.a. lesa eftirfarandi; Við rannsókn vegna framsalsbeiðni má beita þeim þvingunaraðgerðum sem lög um meðferð opinberra mála heimila við rannsókn sambærilegra sakamála. Við ákvörðun þess hvort skilyrði séu til beitingar þvingunaraðgerða má leggja til grundvallar dómsákvarðanir þær sem framsalsbeiðni fylgja án frekari rannsóknar um sönnun sakar viðkomandi manns.

Framangreindum þvingunaraðgerðum má beita uns úr því er skorið hvort framsal skal fram fara og síðan þangað til framsal er framkvæmt sé það heimilað. Ef kveðinn er upp úrskurður um gæsluvarðhald skal því ekki markaður lengri tími en 3 vikur. Þyki nauðsyn bera til að lengja gæsluvarðhaldstímann skal það gert með úrskurði á dómþingi þar sem gæslufanginn er viðstaddur. Ekki má framlengja gæsluvarðhaldstímann um meira en 2 vikur í senn.

LÖG UM FRAMSAL SAKAMANNA OG AÐRA AÐSTOÐ Í SAKAMÁLUM