31 Mars 2007 12:00

Sautján ára piltur, sem er nýkominn með bílpróf, missti stjórn á bíl sínum í Heiðmörk í nótt. Bíllinn hafnaði utan vegar en með piltinum í för voru fjögur önnur ungmenni, sem öll eru 16 ára. Mildi þykir að engan sakaði. Alls voru tuttugu og þrjú umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest þeirra, eða átta, urðu á tímabilinu fjögur til sex síðdegis.

Níu ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær og nótt en þetta voru allt karlmenn. Flestir voru stöðvaðir í Reykjavík, eða sjö. Ökumennirnir eru á ýmsum aldri. Sá yngsti er 18 ára en tveir þeir elstu eru báðir á sjötugsaldri. Í þessum vafasama hópi ölvaðra ökumanna er líka einn á fertugsaldri en sá hefur aldrei öðlast ökuréttindi.