8 Mars 2005 12:00
Jóhann Davíðsson, hverfislögreglumaður í Árbæ og Grafarholti segir:
Ég hef átt viðtöl við foreldra og unglinga í Árbæjarhverfi undanfarnar vikur. Þar hef ég rætt um lífið og tilveruna, félagsskap krakkana, venjur og neyslu vímugjafa. Einnig um þau tímamót að verða sakhæf/ur . Þá er farið yfir ástandið í hverfinu og hvað er til úrbóta.
Mikil vinna hefur farið í að kveða niður hópamyndun við verslunar- og þjónustukjarna í hverfinu. Ástandið þar fór úr böndunum eftir áramótin og bar mikið á kvörtunum. Rætt hefur verið við mikinn fjölda unglinga, foreldra, íbúa og einnig starfsfólk fyrirtækjanna. Ástandið hefur mikið batnað en unnið verður áfram við að kveða þetta niður.
Í viðtölunum hefur ítrekað komið fram, bæði hjá foreldrum og unglingum, að börn í 8. og 9. bekk megi vera úti tveimur tímum lengur um helgar. Það er ekki rétt, sömu reglur gilda um helgar sem og virka daga. Ein helsta ástæða útivistarreglna er að unglingar verði ekki fyrir áreiti seint á kvöldin. Þar á ég við áfengi, fíkniefni, líkamsárásir og annað miður æskilegt sem verður meira áberandi þegar líður á kvöldin, ekki síst um helgar.
Útivistarreglurnar eru landslög, foreldrar geta ekki leyft börnum að vera lengur úti en lögin ákveða. Þeir geta hinsvegar stytt útivistartímann, kjósi þeir það.
Til fróðleiks eru hér reglurnar:
Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, nema þau séu á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.
Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartíminn um tvær klukkustundir.
Aldursmörk þessi miðast við fæðingarár.
Sömu reglur gilda um allt land þetta eru landslög.
Með kveðju, Jói hverfislögga