20 September 2006 12:00

Nokkuð hefur borið á því að börn og unglingar séu lengur úti á kvöldin heldur en lögboðinn útivistartími segir til um. Þetta á ekki síst við um helgar en þá færir lögreglan krakkana í sérstakt athvarf en starfsmenn þess hafa síðan strax samband við foreldra sem er gert að koma og sækja börnin sín. Lögreglan hefur einnig verið kölluð til þegar unglingapartí fara úr böndunum. Því miður er það staðreynd að margt óæskilegt getur gerst í slíkum samkvæmum. Þess vegna eiga foreldrar ekki að leyfa eftirlitslaus unglingapartí.

Það eru börn yngri en 16 ára sem eru færð í athvarf og gildir þá einu hvort þau séu ölvuð eða ekki. Þeim er ekki heimilt að vera á almannafæri eftir klukkan 22:00 nema um sé að ræða viðurkennda heimferð frá skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Séu börnin 12 ára og yngri eru tímamörkin klukkan 20:00. Einnig eru höfð afskipti af ungmennum undir 18 ára aldri ef þau eru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Með þessum aðgerðum er bæði verið að vinna gegn ólöglegri útivist og að sporna gegn ölvun og annarri vímuefnaneyslu. Reynslan hefur sýnt að því yngri sem börn eru þegar þau byrja að drekka, því meiri hætta er á því að þau misnoti áfengi þegar þau eldast. Einnig eru auknar líkur á því að þau ánetjist öðrum fíkniefnum.