8 Nóvember 2011 12:00
Eins og fram hefur komið hafði lögreglan í ýmsu að snúast í óveðrinu í gærkvöld og nótt. Hlutir tókust á loft sumstaðar á höfuðborgarsvæðinu og t.a.m. var nokkrum sinnum kallað eftir aðstoð frá íbúum í Hafnarfirði. Þar fuku auglýsingaskilti, umferðarmerki og þakplötur. Einstaka ruslatunnur fóru líka af stað og gluggar fuku upp. Lögreglan sinnti líka útköllum annars staðar í umdæminu en m.a. þurfti að bjarga garðhúsgögnum sem voru við það að takast á loft. Athygli vakti hinsvegar að lítil eða engin vandræði voru vegna trampólína að þessu sinni. Sem fyrr minnir lögreglan fólk á að festa lausamuni eða koma þeim í skjól þegar spáð er leiðindaveðri.