19 Júní 2012 12:00

Lögreglumenn þurfa að vera við öllu búnir á vaktinni eins og sýndi sig enn og aftur í gærkvöld. Þá hringdi maður á miðjum aldri í 112 og sagði að það væri verið að brjótast inn til hans. Maðurinn hljómaði eins og hann væri logandi hræddur og því var farið tafarlaust á vettvang. Tilkynnandi tók sjálfur á móti lögreglumönnunum þegar þeir komu á staðinn og upplýsti að það hefði verið vampíra, sem hefði látið ófriðlega á stigaganginum. Málið var að sjálfsögðu tekið alvarlega og leituðu lögreglumenn af sér allan grun en enga vampíru var að finna í húsinu. Manninum var bent á að hringja aftur í lögregluna ef vampíran birtist á nýjan leik og virtist það róa hann nokkuð. Ekki kom þó til þess og má því telja að vampíran hafi haldið sig fjarri. Hvort hér var um fjarskyldan ættingja Drakúla að ræða er hins vegar með öllu óljóst.