13 Mars 2008 12:00

Nýlega tilkynnti kona til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að mjög dýrmætum pelsi hennar hefði verið stolið þar sem hún hafði skilið hann eftir í fatahengi veislusalar í miðborginni þar sem hún var við erfidrykkju.

Nokkrum dögum síðar var athygli lögreglumanna á varðgöngu vakin á að pelsklæddur, en að öðru leyti illa tilhafður, karlmaður hefði sést spígsspora um miðborgina. Lögreglumennirnir brugðust þegar við og gengu skipulega um miðborgarsvæðið, en voru við það að gefast upp þegar sá pelsklæddi birtist skyndilega kotroskinn fyrir framan þá. Maðurinn var handtekinn við það sama og afklæddur flíkinni eftirsjáanlegu. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir því hvort hann hefði verið í umræddri erfidrykkju og gripið pelsinn með sér á leiðinni út, en það hefði vel getað verið.

Konan bar strax kennsl á flíkina og fékk hana afhenta að nýju. Maðurinn verður væntanlega ákærður fyrir þjófnað og mun sæta refsingu fyrir vikið.