20 Júlí 2019 09:00
Enn eina ferðina er rýnt í ritið Lögreglan í Reykjavík, sem kom út á þriðja áratug síðustu aldar, en þar eru löggæslumál í Reykjavík á 19. öld til umfjöllunar og gerð ágæt skil. Það verður þó að segjast að lögreglumennirnir á þessum tíma voru ekki barnanna bestir og lýsingarnar á þeim ekki alltaf fagrar. „Því verður ekki neitað, að drykkjuskapur var um allt þetta tímabil óhemjulega mikill í Reykjavík, og þó mun verri framanaf en síðar varð. Það var alltaf verið að handsama menn, ekki sízt utanbæjarmenn í kauptíðinni og erlenda sjómenn, sem voru ölvaðir á almannafæri og fóru þá ófriðlega, enda urðu af tíðar ryskingar og slagsmál. Þá voru allmargir menn, ekki minnst smákaupmenn, sem fóru með ólöglegar veitingar, og þá gáfu veitingahúsin og klúbburinn, sem var hreinn og beinn drykkjufélagsskapur, mikið tilefni til eftirlits. Þó að slík mál væru mjög oft á ferðinni, þá var ein geysileg hindrun í vegi fyrir því, eð meðferðin gæti orðið eins og skyldi, en það var að lögregluþjónarnir voru sjálfir allflestir vandræðamenn um drykkjuskap, og sumir þeirra ráku, eins og getið hefur verið, sjálfir óleyfilegar veitingar.“
Og ekki batna lýsingarnar þegar áfram er lesið. „Aldrei fékk lögreglan heldur orð fyrir það, að vera kjarmikil eða dugleg við að skakka leik, þegar þess með þurfti, og er það í minnum haft, þó hvergi sé það bókfest, að þegar Frökkum og Þjóðverjum lenti í bardaga hér á götunum sumarið 1871, létu lögregluþjónarnir hvergi sjá sig, og faldi einn þeirra sig í púðursykri í Fischersbúð, en annar í salthúsi einnar verzlunarinnar. Stundum, en sjaldan, komu fram opinberar kvartanir um aðgjörðarleysi lögreglunnar. 1836 sendi Eiríkur sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu Sverrisson vinnumann sinn til Reykjavíkur, og var hann barinn til óbóta á götunum þar, en lögreglunni tókst ekki að hafa upp á sökudólgunum. Skrifaði sýslumaður grein um þetta í Sunnanpóstinn og vítti þar Reykjavíkurlögregluna mjög. Þá var Þórður Sveinbjörnsson settur bæjarfógeti og svaraði mjög hvatlega í sama riti og sagði, að bezt væri að senda ekki menn til Reykjavíkur, sem „lokuðu augunum meðan þeir væru barðir“, því vinnumaðurinn hafði ekki getað lýst mönnum þeim, er á hann réðust.“