23 Ágúst 2007 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar starfsmenn skartgripaverslana við óprúttnum aðilum sem hafa þegar stolið skartgripum úr einni verslun í Reykjavík og gert tilraun til þjófnaðar í annarri verslun í borginni. Um er að ræða karl og konu af austur-evrópskum uppruna en þau eru bæði dökk yfirlitum. Með þeim í för er stundum ung stúlka, 4-5 ára. Talið er að konan sé um þrítugt en maðurinn nokkru eldri en hann er mjög vel til fara. Fólkið beitir þeirri aðferð að fanga athygli starfsmanna verslana með því að maðurinn dregur upp seðlabúnt og lætur sem hann ætli að kaupa tiltekinn hlut. Á meðan virðist sem konan eða barnið steli skartgripum þegar ekki sést til þeirra.

Einnig er varað við fólki sem býður gull til sölu en málin tvö eru talin tengjast og jafnvel að sömu aðilar eigi þar hlut að máli. Grunur leikur á að fólkið sé á gráleitri BMW-bifreið með erlendu skráningarnúmeri. Þeir sem verða fólksins eða bílsins varir eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.