12 Júlí 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við gylliboðum eins og þeim þegar heimilishjálp er boðin ókeypis. Svo virðist sem eldri borgurum sé boðin þessi þjónusta og þeim að kostnaðarlausu. Ellilífeyrisþegi fékk hringingu af þessu tagi, en hringjandi sagði þjónustuna í boði tiltekinna samtaka. Hringt var úr leyninúmeri, en þegar haft var samband við umrædd samtök kannaðist enginn við málið og þjónustan var ekki á þeirra vegum. Rétt er því að vara fólk við þessum gylliboðum enda leikur grunur á að eitthvað annað og verra búi þar að baki. Mikilvægt er því að fólk hleypi ekki ókunnugum inn á heimili sín nema að kanna fyrst hvort að viðkomandi sé sá sem hann segist vera. Í því felst að sannreyna að hinn sami sé frá þeim samtökum sem tilgreind eru, líkt og var gert í áðurnefndu tilviki.