27 Febrúar 2007 12:00

Undanfarið hafa borist tilkynningar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að verið sé að hringja í fólk fyrirvaralaust erlendis frá og bjóða fram hagstæð kaup á hlutabréfum í erlendum fyrirtækjum.  Lögreglan telur rétt að vara við að taka þátt í öllum slíkum viðskiptum enda hafa komið upp tilvik þar sem tapast hafa milljónir króna er menn hafa látið blekkjast.

Fjársvik af þessu tagi hafa aukist mjög á meginlandi Evrópu og kallast þar “boiler room fraud” þar sem boðin er til sölu hlutabréf á hagstæðu verði með loforðum um skjótfengin gróða.  Tilboð þessi geta verið mjög sannfærandi með tilheyrandi tilvísunum á heimasíður viðkomandi fyrirtækja sem mörg hver eru starfandi.  Kaupandi fær yfirleitt skriflega staðfestingu fyrir kaupunum á hlutabréfunum sem síðar reynist ekki pappírsins virði.  Afar erfitt getur reynst að endurheimta nokkuð af þeim peningum sem menn láta af hendi í þessum viðskiptum.