11 Maí 2007 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við mikilli umferð á morgun, laugardaginn 12. maí. Þetta á sérstaklega við um miðborgina en þar má búast við fjölmenni. Ráðhúsið hýsir einn af kjörstöðunum í Reykjavíkurkjördæmi norður en á sama tíma og fólk greiðir atkvæði býður Listahátíð Reykjavíkur upp á viðburði í miðborginni.
Takmörkuð bílastæði eru í miðborginni auk þess sem nú eru þrengingar við Lækjargötu og Kalkofnsveg og má því búast við umferðartöfum á svæðinu. Því biður lögreglan ökumenn um að fara varlega og sýna tillitssemi. Einnig beinir lögreglan þeim tilmælum til borgarbúa að þeir noti bifreiðastæði annarsstaðar en í miðborginni og Kvosinni og gangi í miðbæinn eða noti strætisvagn til að komast á milli staða.
Ekki er verra ef góða skapið er með í för en sé það til staðar eru meiri líkur á því að umferðin gangi vel fyrir sig.