5 Febrúar 2007 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar enn við svokölluðum Nígeríubréfum en þau innihalda gylliboð sem ekki eru á rökum reist. Að baki þeim standa óprúttnir aðilar sem svífast einskis. Því miður hafa margir Íslendingar látið glepjast en fjárhagslegt tjón þeirra er umtalsvert. Eitt slíkt mál er nýkomið til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Svikahrapparnir beita ýmsum brögðum og velþekkt er brella þeirra sem þykjast vera fulltrúar erlendra ríkisstjórna. Gjarnan eru sendar tilkynningar þar sem fólki er lofað ótrúlegustu hlutum. Dæmi um það er að upplýsa fólk um að þess bíði vænn arfur. Svikahrapparnir notast einkum við tölvupóst en talið er að 1% viðtakenda láti blekkjast. Til að koma málum af stað er viðkomandi fenginn til að leggja fram ákveðna upphæð sem vindur stöðugt upp á sig. Sífellt þarf að bæta við upphæðina svo arfurinn, eða hvað það nú er, geti komist í réttar hendur. Stöðugt eru færðar fram nýjar afsakanir til að hafa enn meira fé af hinum hrekklausum.

Einnig er vinsælt að nota happdrættisvinninga í blekkingarskyni. Almenningur ætti líka að varast þá en umfram allt að leita til lögreglu þegar gylliboðin berast og grunsemdir vakna. Það er margt að varast, ekki síst í netviðskiptum. Hér að neðan má nálgast gagnlegar upplýsingar en viðvaranir lögreglu eiga jafn vel við og áður. 

Fjársvik á netinu