5 Febrúar 2022 12:48

Starfshópur Landhelgisgæslu og kafara sérsveitar ríkislögreglustjóra ásamt björgunarsveitum staðsettu um miðnætti í gær, með sónarmyndun, flak flugvélarinnar TF ABB á botni Ölfusvatnsvíkur í Þingvallavatni.   Í framhaldi af því var sendur kafbátur niður og með honum voru teknar ljósmyndir af flakinu sem staðfesta að um þessa tilteknu vél er að ræða.  Í framhaldi af því lauk vinnu á vettvangi. í nótt var unnið  úr gögnunum og voru þau lögð fyrir á fundi aðgerðarstjórnar  nú í hádeginu.

Fram að þessu hefur Landhelgisgæsla Íslands haft stjórnun aðgerða með höndum í samræmi við ákvæði reglugerðar um leit og björgun en nú þegar slysstaður er þekktur færist forræði máls yfir á hendur Lögreglunnar á Suðurlandi.   Aðgerðin, og stjórnun hennar,  fram til þessa hefur gengið afar vel og samstarf milli eininga og umdæma verið með eindæmum auðvelt.  Stór þáttur í því er sá lærdómur sem Íslendingar hafa öðlast á notkun fjarfundabúnaðar á margnefndum Covid tímum og hefur hann auðveldað alla skipulagningu og samskipti á þessari umfangsmiklu aðgerð.

Stjórnendur aðgerða vilja koma á framfæri einlægum þökkum til björgunarsveita og viðbragðsaðila allra, sjálfboðaliða og einstaklinga sem boðið hafa fram aðstoð sína í formi leitar úr lofti og vatni, fæðis, gistiaðstöðu eða hverju þvi sem nöfnum tjáir að nefna og í raun einstök verðmæti sem felast í þeirri samheldni meðal landsmanna sem aðgerðin leiðir í ljós.

Framundan er tæknilega flókin aðgerð við að ná flakinu og fólkinu sem í vélinni var upp á yfirborðið.  Sú vinna fer fram samhliða rannsókn slyssins sem er í höndum rannsóknardeildar Lögreglunnar á Suðurlandi og Rannsóknarnefndar samgönguslysa.   Tæknileg úrlausn hennar verður í höndum Landhelgisgæslu og sérsveitar ríkislögreglustjóra sem munu kalla til þá aðila sem til þarf.    Næstu dagar verða nýttir til undirbúnings þess verkefnis og fyrir liggur að til þess að það gangi vel fyrir sig þarf að vera veðurgluggi sem varir a.m.k. í tvo sólarhringa.  Aðgerðinni fylgja umtalsverðar hættur fyrir björgunarlið og skiptir miklu að hún sé vel undirbúin.