30 Janúar 2023 09:43

Enn er veðrið að gera landsmönnum lífið leitt, en gefnar hafa verið út viðvaranir fyrir stóran hluta landsins. Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun vegna veðurs frá kl. 15 í dag og gildir hún í hálfan sólarhring, eða til kl. 3 í nótt. Spáð er vaxandi austanátt í dag og þykknar upp, 15-25 m/s og snjókoma síðdegis, hvassast á Kjalarnesi. Frost 0 til 5 stig.

Rétt er að vekja athygli á appelsínugulum viðvörunum í kringum höfuðborgarsvæðið, en þar er búist við að vegir geti lokast með stuttum fyrirvara. T.d. um Hellisheiði og Mosfellsheiði en báðar leiðir verða á óvissustigi samkvæmt Vegagerðinni. Þetta á við um Hellisheiði frá kl. 11 og Mosfellsheiði frá kl. 12, en sama gildir einnig um Kjalarnes.