21 Apríl 2021 09:34
Skilaboð frá DHL, Póstinum og öðrum
Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Þessi verknaðaraðferð er búin að vera í gangi um langan tíma en sérstaklega frá desember. Einstaklingar eru að fá skilaboð í síma eða á tölvu um að pakki sé á leiðinni og þeir þurfi að greiða smágjald fyrir móttöku. Tengill fylgir á síðu þar sem viðkomandi á að færa inn kortaupplýsingar.
Þær upplýsingar eru síðan misnotaðar og einstaklingur getur staðið uppi með töluvert tjón sem er frá tugum þúsunda og allt að milljón.
Lögregla, CERT-ÍS og fleiri hafa verið að vinna með þessi mál.
Vandi okkar er margþættur, sér í lagi þar sem gerendur, glæpamennirnir eru ekki á Íslandi og eru stöðugt að búa til nýjar slóðir til að framkvæma svindlið. Svindlið er framkvæmt í nafni þekktra fyrirtækja en þau eru að verða fyrir kennistuldi og eru því þolendur líka.
Oft er þetta vel gert og gengur út á að sannfæra fólk um að þau séu að fá pakka frá þekktu fyrirtæki.
Varið ykkur því ef þið eruð að fá svona sendingar. Gefið ykkur tíma að skoða skeyti, oft er eitthvað skrítið við slóðirnar sem passar ekki. Þá sendir DHL á Íslandi reikning á heimabanka og Pósturinn tekur við greiðslu á staðnum. Fyrirtæki nota ekki þessa leið og aldrei erlenda mynt.
Sparið ykkur stress, áhyggjur og peninga og verið tortryggin á svona skeyti. Sérstaklega þau sem gera kröfu á að eitthvað gerist strax eða skeytið berst rétt fyrir eða um helgi (til þess að þið getið ekki hringt og spurst fyrir).
Því miður er þetta svindl að ganga nokkuð vel hjá svindlurunum og ekkert lát á fjölda þeirra.
Vefveiðar er það sem kallast phishing á ensku. Glæpurinn felst í því að senda skilaboð í glæpsamlegum tilgangi á stóran hóp fólks í von um að einhver falli fyrir gildrunni.
Lögreglan vill gjarna fá að vita ef þið eruð að fá svona skeyti og þær eru notaðar til að loka á tengla, sem tefur þá tímabundið og glæpamennirnir þurfa að byrja upp á nýtt.
Sendið okkur skeyti á abendingar@lrh.is eða cybercrime@lrh.is