8 Júní 2021 08:54
Ýmsar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á höfuðborgarsvæðinu og utan þess:
Stefnt er að því að malbika akreinar í báðar áttir neðst í Kömbum í dag. Lokað verður yfir Hellisheiði á milli kl. 9 og 20 og verður umferð beint um hjáleið um Þrengsli.
Vegna vinnu og þrifa verða Hvalfjarðargöng lokuð þriðjudagskvöldið 8. júní, miðvikudagskvöldið 9. júní og fimmtudagskvöldið 10. júní, frá miðnætti til 6.30 alla dagana. Hjáleið er um Hvalfjarðarveg.
Í dag og á morgun verður vinna við rafstreng á vegum Veitna við Mýrargötu. Þrengt verður að umferð og hámarkshraði tekinn niður í 30 km/klst. Fimmtudaginn 10. júní verður götunni svo lokað í u.þ.b. 3 vikur.
Og loks má nefna að malbiksyfirlagnir eru áætlaðar á nokkrum stöðum í borginni í dag, m.a. í Sörlaskjóli, Hátúni, Lambaseli og Fljótaseli, en þessar framkvæmdir eru háðar hagstæðu veðri.
Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin.