12 Desember 2006 12:00

Nokkrir vegfarendur höfðu samband við lögregluna í Reykjavík í gær og báðust afsökunar á framkomu sinni sl. sunnudag í kjölfar banaslyss á Vesturlandsvegi. Hinir sömu höfðu áður lýst yfir óánægju sinni með lokun vegarins og gerðu það bæði á vettvangi og símleiðis. Lögreglan fagnar þessu framtaki sem sýnir að batnandi fólki er best að lifa.

Áður hefur komið fram að allmargir sýndu lítinn skilning á því að þar hefði orðið alvarlegt slys en við það bættist að aðstæður á slysstað voru erfiðar. Veðrið var leiðinlegt og skyggni takmarkað. Ekki var mögulegt að liðka fyrir umferð fyrr en frumrannsókn lauk. Lögreglan vonar að eftirleiðis sýni vegfarendur meiri skilning þegar aðstæður sem þessar koma upp.