8 Júní 2007 12:00

Tveir piltar voru staðnir að veggjakroti í Smáralind í gærkvöld. Piltunum, sem eru 13 og 14 ára, var komið til síns heima en rætt var við þá og foreldra þeirra. Veggjakrot er litið alvarlegum augum enda er um eignaspjöll að ræða. Mál sem þessi koma nánast daglega á borð lögreglu en í fyrrakvöld voru þrír piltar, sem einnig eru 13 og 14 ára, teknir fyrir sömu iðju í Breiðholti. Þremenningarnir voru nokkuð stórtækir og ljóst er að töluverð vinna fer í að ná veggjakroti þeirra af.

Því miður komu fleiri unglingar við sögu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær. Tveir strákar um fermingaraldur voru staðnir að hnupli í matvöruverslun í austurborginni laust eftir hádegi og síðdegis var jafnaldri þeirra gripinn í Kópavogi. Sá reyndi að stela peningum úr búningsklefa. Stelpur falla líka í freistni en á miðvikudag voru tvær stúlkur, 12 og 13 ára, teknar í Smáralind. Þær höfðu tekið varning ófrjálsri hendi úr fjórum verslunum.