7 Febrúar 2007 12:00

Fjórir veggjakrotarar voru gripnir í Reykjavík í gær. Þetta eru allt piltar en sá yngsti, 11 ára, var staðinn að verki við íbúðarhús í Breiðholti síðdegis. Ungi maðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hringt var í foreldrana og þeim gert að sækja hann. Um hálftíuleytið í gærkvöld voru þrír piltar, 14 og 15 ára, teknir í Skeifunni þar sem þeir höfðu orðið uppvísir að veggjakroti. Þeir voru líka færðir á lögreglustöð þar sem hringt var í foreldra þeirra og þeim gert að sækja skemmdarvargana. Töluvert hefur borið á veggjakroti á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu en nokkur slík mál eru nú til rannsóknar.

En það voru fleiri skemmdarvargar á ferðinni í gær því rúða var brotin í húsi í Hafnarfirði síðdegis. Þá var rúða brotin í fjölbýlishúsi í Kópavogi í nótt.