11 Nóvember 2008 12:00

Í lok síðasta mánaðar var krotað á veggi hjólageymslu í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Veggjakrotararnir náðust en um var að ræða þrjá pilta, 13-14 ára, og játuðu þeir allir aðild sína að málinu en tjónið var nokkurt. Óhjákvæmilega fylgir því bæði kostnaður og fyrirhöfn að ná veggjakroti af en í þessu tilfelli náðust sættir sem fólust í því að piltarnir máluðu sjálfir yfir krotið. Málsaðilar voru ánægðir með þá niðurstöðu en bæði tjónþolarnir og forráðamenn piltanna töldu það réttláta refsingu fyrir athæfið. Veggjakrotararnir sjálfir voru líka komnir á þá skoðun en þeir komu á svæðisstöðina í Breiðholti í gær og lögðu fram ljósmyndir af nýmálaðri hjólageymslu, sem nú er tandurhrein og fín og laus við allt veggjakrot. Með þessu sönnuðu piltarnir að þeir hefðu staðið við sinn hlut en málinu telst nú vera lokið.