9 Maí 2007 12:00

Þrír piltar á þrettánda aldursári voru staðnir að verki við veggjakrot í miðborginni eftir hádegi í gær. Þeim var gert að þrífa veggjakrotið af en forráðamönnum þeirra var tilkynnt um málavexti. Skömmu síðar var 10 ára piltur gripinn við sömu iðju í Breiðholti og var honum ekið til síns heima. Sá iðraðist sáran en foreldrum hans var gert viðvart.

Vonandi hafa piltarnir lært sína lexíu en veggjakrot er dýrt spaug. Það kostar skattborgarana milljónir króna á hverju ári að þrífa krotið af mannvirkjum hér og þar í borginni. Og þetta eru fjármunir sem koma m.a. úr vasa foreldra veggjakrotaranna sjálfra.