4 September 2012 12:00

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á meintri, hrottalegri líkamsárás fjögurra 12-13 ára pilta á sex ára dreng í Breiðholti hefur ekki leitt neitt í ljós. Líkamsárásin var ekki tilkynnt til lögreglu en hún frétti af málinu eftir að greint var frá því á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu í gær (mánudaginn 3. september). Í kjölfarið hóf lögreglan rannsókn enda virtist málið vera mjög alvarlegt, líkt og lesa mátti um í blaðinu. Þrátt fyrir ítarlega rannsókn og eftirgrennslan í gær og í dag hefur ekkert komið fram sem varpar ljósið á málið og lögreglan hefur hvorki fundið árásarþola né gerendur. Rætt hefur verið við fjölmarga í þágu rannsóknarinnar, m.a. íbúa í hverfinu, fulltrúa skólayfirvalda og starfsmenn heilbrigðisstofnana. Enginn þeirra gat veitt vitneskju um hina meintu líkamsárás og því skortir enn frekari staðfestingu á þeirri atburðarás, og þ.m.t. alvarlegum meiðslum árásarþola, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum.