23 Maí 2024 14:23

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú fjögur tilvik þar sem karlmaður veittist að börnum í Hafnarfirði. Fyrsta málið átti sér stað á eða við Víðistaðatún í byrjun mánaðarins og tæpri viku síðar kom upp ámóta mál við Engidalsskóla. Síðastliðin föstudag var tilkynnt um karlmann nærri Lækjarskóla og hann sagður elta barn og bjóða því nammi. Og í gærmorgun, miðvikudag, veittist maður að stúlku á göngustíg á milli Miðvangs og Víðistaðaskóla. Málin hafa valdið áhyggjum, eðlilega, en lögreglan hefur aukið eftirlit sitt í Hafnarfirði vegna þeirra. Rannsókn lögreglu snýr m.a. að því hvort um sama mann var að ræða í öll skiptin, en hún leggur jafnframt áherslu á að tilkynnt sé um málin eins fljótt og verða má og þá í 112. Slíkar tilkynningar eru ávallt teknar mjög alvarlega og hjálpa lögreglu að bregðast hratt við. Berist þær (tilkynningar) nokkrum klukkutímum eftir atvik, eða daginn eftir, torveldar það leitina að gerandanum. Að endingu er minnt á að betra er að hringja í lögregluna einu sinni of oft heldur en einu sinni of sjaldan.