30 Ágúst 2023 14:50

Veðurstofa Íslands hefur sett á gula viðvörun vegna hvassviðris og töluverðrar rigningar að kvöldi föstudags og fram á laugardag.   Vegna þessa er skynsamlegt að fólk hugi að því í tíma að festa niður lausamuni svosem trampolín og annað sem er þekkt fyrir að fara af stað í fyrstu veðrum haustsins.  Byggingaverktakar eru hvattir til að tryggja byggingarefni og annað á byggingasvæðum svo ekki sé hætta á tjóni á þeim eða af völdum þess.   Á þessum sama tíma verður varasamt að vera á ferð á Suðurlandi með hjólhýsi og á húsbílum sem taka á sig mikinn vind gangi spár eftir.  Einnig má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum eftir því sem úrkoman skilar sér.

Við hvetjum fólk til að fylgjast með veðurspám á vedur.is og/eða blika.is