19 Desember 2008 12:00
Fyrr í vikunni varaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eigendur og umráðamenn ökutækja við því að skilja verðmæti eftir í bílum. Þetta er ítrekað hér enda full ástæða til því nokkuð er um innbrot í bíla á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða þessu hefur lögreglan kannað hvernig ástandið er, þ.e. hvort verðmæti séu almennt í augsýn þegar farið er um bílastæði. Farið var á tvö mjög stór bílastæði í borginni. Á öðru þeirra voru 350 bílar, nær allir læstir. Hinsvegar mátti mjög vel sjá verðmæti í mörgum þeirra, t.d. fartölvur, ipoda, íþróttatöskur, fatnað og jafnvel áfengi. Á hinum staðnum voru tæplega 250 bílar og voru sömuleiðis flestir þeirra læstir. Í rúmlega 70 þessara bíla voru verðmæti einnig mjög sýnileg. Af þessu má draga þá ályktun að fólk þurfi að taka sig á. Það býður einfaldlega hættunni heim að skilja verðmæti eftir á glámbekk með þessum hætti.
Sé óhjákvæmilegt að skilja verðmæti eftir í bílum er afar mikilvægt að þau séu ekki í augsýn. Lögreglan bendir einnig á mikilvægi þess að skilja bíla frekar eftir á upplýstum bílastæðum, ef þess er nokkur kostur. Þjófum finnst nefnilega fátt betra en að athafna sig í myrkrinu þar sem ekki sést til þeirra.
Myndavélar og tölvur freista þjófa.
Jafnvel jólagjafir fá ekki að vera í friði.
Bíl lagt á öruggum stað í dagsbirtu.
Er þetta öruggur staður eftir að myrkur er skollið á?