27 Apríl 2020 13:09

40 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Einn reyndist á rúmlega 140 km/klst hraða og 3 á bilinu 131 til 140 km/klst hraða á 90 km vegum. Ljóst er að þarna er vel í lagt og slysahætta umtalsverð.   6 þessara hraðakstra eru innan bæjarmarka, annarvegar á Selfossi, á Eyrarbakka og á Hellu á svæðum þar sem hámarkshraði er 70, 50 eða 30 km/klst

Einn er grunaður um akstur um Flóann undir áhrifum áfengis.   Aðrir sem lögreglan hafði afskipti af reyndust í lagi hvað þetta varðar og nú ber svo við að engin er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja þrátt fyrir mikið eftirlit lögreglu.

Tveir eru kærðir fyrir að nota farsíma/snjalltæki við akstur bifreiðar sinnar án þess að vera með handfrjálsan búnað. Annar þeirra braut jafnframt gegn stöðvunarskyldu við þessa iðju sína og var sektaður fyrir það brot líka.

3 umferðarslys voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku. Í einu þeirra, þann 20. apríl slasaðist ökumaður, sem missti stjórn á bíl sínum innan bæjarmarka í Hveragerði, lítillega þegar bifreið hans endaði á ljósastaur. Í hinum tveimur tilvikunum reyndist einungis um minniháttar eignatjón að ræða.

Verum góð við hvort annað er boðskapur þessa tíma.   Það er ekki að ástæðulausu og alveg ljóst að það er full ástæða til að huga að nánunganum.   Nokkur tilfelli komu upp í liðinni viku þar sem lögregla var beðin um að grenslast fyrir um einstaklinga sem aðstandendur höfðu áhyggjur af vegna andlegs ástands þeirra.   Einn þessara einstaklinga var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en aðrir reyndust í þannig ástandi að ekki kom til sjúkrahúsinnlagnar.

Tilkynning barst um akstur á Fjallabaksleið syðri þar sem vegur er blautur og að koma undan snjó. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tjón á veginum en skynsamlegt er að ekki sé verið að aka þessar leiðir þar sem miklar líkur eru á festum og tilheyrandi tjóni á vegum. Skv upplýsingavef vegagerðarinnar er Nyrðra Fjallabak og Dómadalsleið lokuð vegna aurbleytu.

Svo skulum við hvergi slaka á í aðgerðum okkar vegna koronaveirunnar.   Sá árangur sem náðst hefur er merkilegur og helgast af öllum þessum litlu hlutum sem hver og einn hefur lagt á sig samfélaginu til heilla.   Klárum dæmið saman, við erum jú öll almannavarnir.