3 Ágúst 2023 13:55

1388 ökumenn hafa nú verið kærðir fyrir að aka of hratt á Suðurlandi það sem af er árs.   Allt árið í fyrra voru 1475 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt.  76 ökumenn hafa á sama tíma verið kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis.  Allt árið í fyrra voru þeir 123.  Þá hafa 107 ökumenn verið kærðir fyrir að aka undir árifum fíkniefna á árinu en voru 115  allt árið í fyrra.

Lögreglan á Suðurlandi hefur lagt mikið upp úr því að vera með sýnilegt eftirlit í umferðinni það sem af er ári og m.a. reynt að stefna eftirlitsbílum þangað sem fólksfjöldinn og ferðamenn eru flestir hverju sinni, til þess að stytta þann tíma sem tekur að fá okkur á staðinn þegar alvarlegir atburðir eiga sér stað.  Sérstaklega hefur verið hugað að uppsveitum Árnessýslu og að Öræfum  þar sem alla jafna er langt í aðstoð.

Nú er framundan ein af stærstu ferðahelgum ársins og því hefur, líkt og síðustu ár, verið bætt í eftirlit, bæði með umferð og á þeim stöðum þar sem samkomur eru auglýstar og/eða líkur eru á að fólk safnist saman.  Markmiðið er að allir eigi góða daga og komist heilir heim.  Margir leggjast í ferðalög um helgina og þá er gott að gera nágrönnum viðvart um þau plön og biðja  þá sem heima eru að hafa auga með heimilum því alltaf eru einhver brögð að því að óprúttnir aðilar nýti sér fjarveru heimilismanna og kíki óboðnir í heimsókn.   Verum því vakandi fyrir öllu því sem okkur finnst óeðlilegt, gerum viðvart um það og tökum þátt í að gera samfélagið öruggt.

Hvað varðar umferðareftirlitið þá hefur verið lögð á það áhersla í sumar að setja upp umferðarpósta og stoppa alla umferð og kanna með ástand og réttindi ökumanna.   Við munum halda því áfram um helgina og hvetjum þá sem hafa eða eru að gera sér glaðan dag að fara ekki af stað undir áhrifum og ekki fyrr en örugglega er af þeim runnið.  Draumastaðan er að allir sem lögregla hefur afskipti af við akstur séu alsgáðir.  Okkur til aðstoðar eru lögreglulið í nærliggjandi umdæmum og ekki á vísan að róa um það hvar við berum niður hverju sinni.   Þó liggur fyrir að sérstaklega verður fylgst með akstri  frá Landeyjahöfn en reynslan sýnir okkur að margir misreikna sig þegar þeir fara af stað eftir þjóðhátíð.

Fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagnar sjást víða á ferðinni og mikilvægt er að búnaður þeirra og búnaður við tengingu og drátt sé í lagi.  Þetta þarf að yfirfara áður en farið er af stað í útileguna.

Við vitum að umferðin gengur hægar eftir því sem hún er meiri.  Þvi er mikilvægt að vera tímanlega á ferðinni og grípa með sér svona um það bil 50 kg. sekk af auka þolinmæði.  Framúrakstur í þéttri umferð skapar mikla hættu og er ekki líklegur til að skila mönnum mikið fyrr á áfangastað.  Áhættan af slíkum akstri er einfaldlega ekki ásættanleg.

Komi eitthvað upp á þá er það sama neyðarnúmer og alltaf, Neyðarlínan  112  Mikilvægt er að nota það númer því þá um leið eru neyðarverðir búnir að tengja saman alla viðbragðsaðila sem kallaðir eru til hverju sinni,  lögreglu, sjúkraflutninga, slökkvilið og björgunarsveitir o.fl.  þannig að þessar einingar vinna strax sem ein heild, með sömu upplýsingar og allar að því markmiðið að hjálpa þeim sem er í vanda staddur.  Þetta sameiginlega afl viðbragðsaðila hefur leyst stærstu verkefni af skilvirkni og öryggi og þannig viljum við hafa það.  Stundum hefur það gerst að menn meta „sitt mál“ of smávægilegt til að hringja í 112 en staðreyndin er að þangað viljum við fá verkefnin til að öll stýring viðbragðs sé sem markvissust.

Við hvetjum íbúa og ferðamenn til að taka þátt  í því sameiginlega markmiði að það verði gaman, allir geti verið með og að allir komist heilir heim.

 

Góða helgi.