18 Ágúst 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík mun kappkosta að liðsinna ökumönnum og öðrum vegfarendum á Menningarnótt og reyna eftir föngum að sjá til þess að fólk komist leiðar sinnar úr miðborginni eftir hefðbundna dagskrá. Þó er alveg ljóst að vegfarendur mega búast við töfum.
Lögreglan mun sinna eftirliti með lokun gatna í tengslum við Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþon sem fram fer sama dag. Ræst verður í hlaupið klukkan 08:00 en tímatöku verður hætt klukkan 15:00. Öflug umferðarlöggæsla verður allan daginn en þegar dagskrá lýkur á Menningarnótt munu lögreglumenn aðallega sinna umferð um Sæbraut, Hringbraut/Miklabraut og Bústaðaveg að Suðurhlíð. Samhliða umferðarstjórnun verða umferðarljós á Sæbraut og Hringbraut/Miklubraut tekin úr sambandi þegar flugeldasýningu lýkur. Vonast er til að þessi umferðarstýring liðki mjög fyrir allri umferð. Þess ber sérstaklega að geta að lokað verður fyrir umferð frá klukkan 19:00 um Sæbraut að Kringlumýrarbraut og Geirsgötu frá Ægisgötu.
Þá verða lögreglumenn við almenna löggæslu eftir nánara skipulagi lögreglunnar í Reykjavík. Aðstaða fyrir útkallslið lögreglu og slökkviliðs verður við menntamálaráðuneytið (Ingólfsstræti/Sölvhólsgötu). Þaðan mun löggæslu verða stjórnað.
Hverfisgata verður lokuð fyrir almenna umferð frá kl. 10:00. Þetta er gert m.a. með öryggishagsmuni í huga. Biðstöð strætisvagna í miðborginni verður í Vonarstræti frá klukkan 15:00 en í Tjarnargötu fram að þeim tíma. Aðsetur leigubíla verður við Traðarkot sem er gegnt Þjóðleikhúsinu á Hverfisgötu. Íbúar í miðborg Reykjavíkur eru vinsamlegast beðnir um að takmarka notkun einkabifreiða eins og kostur er.