1 Maí 2024 11:15

Viðburðir dagsins munu hafa töluverð áhrif á vegfarendur á miðborgarsvæðinu og í vesturbænum, en upplýsingar um þá er að finna á síðum Reykjavíkurborgar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nefnir sérstaklega hópakstur Sniglanna, sem fer frá Grandagarði kl. 12. Þaðan liggur leiðin um Mýrargötu, Geirsgötu, Lækjargötu, Fríkirkjuveg, Sóleyjargötu, Gömlu Hringbraut, Vatnsmýrarveg, Hlíðarfót og Nauthólsveg, en aksturinn endar við Háskólann í Reykjavík. Vegna þessa verða tafir fyrir aðra vegfarendur á umræddri leið, en sérstök athygli er vakin á töfum sem verða á gatnamótum Hringbrautar við Vatnsmýrarveg og Hlíðarfót núna í hádeginu á meðan hópaksturinn fer yfir gatnamótin. Þar má búast við talsverðum töfum og kannski betra fyrir aðra þá sem málið varðar að flýta/seinka för eða velja sér mögulega aðra leið að þessu sinni. Gera má ráð fyrir að umrædd hópkeyrsla standi yfir í allt að klukkustund, þ.e. frá Grandagarði að Háskólanum í Reykjavík.