23 Desember 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt skýrslu með niðurstöðum úr árlegri könnun á viðhorfum til lögreglu, ótta við afbrot og reynslu af þeim. Gagnaöflun var framkvæmd af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í maí og júní 2013. Tekið var 2.000 manna tilviljunarúrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar og var svarhlutfallið 64%.

Helstu niðurstöður eru:

·         Yfirgnæfandi meirihluti (90%) sagði lögreglu skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum, hlutfallið hefur lítið breyst milli kannanna.

·         Flestir sjá lögreglu í sínu hverfi mánaðarlega eða sjaldnar (36%).

·         Um 44% svarenda sögðust hafa haft samband við lögreglu með einhverjum hætti. Þar af nýttu flestir sér samfélagsmiðla lögreglu eða 47%.

·         Tæp 76% svarenda sögðu lögregluna vera mjög eða frekar aðgengilega. Þetta hlutfall hækkar nú milli ára eftir að hafa lækkað síðustu ár.

·         Af þeim sem fannst lögreglan vera óaðgengileg nefndu 44% ástæðu þess vera þá að engin lögreglustöð væri í hverfinu eða byggðarlaginu.

·         Rúmlega 85% þátttakanda sögðust mjög ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu í samskiptum við lögreglu, samanborið við 67% árið á undan.

·         Um 59% svarenda töldu sig vera óörugga eina á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir að myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar.

·         Yfirgnæfandi meirihluti (88%) taldi sig vera öruggan í sínu hverfi einan á gangi að næturlagi. Hlutfallið hefur haldist svipað í heildina síðustu ár.

·         Hlutfallslega flestir töldu eignaskemmdir (21%) og umferðarlagabrot (20%) vera mesta vandamálið í sínu hverfi. Færri nefna innbrot en áður.

·         Áfram fjölgar þeim sem segjast hafa upplifað aðstæður þannig síðasta árið að þeir töldu líklegt að þeir yrðu fyrir afbroti. Hlutfallið var 62% í þessari könnun og hefur hækkað með hverri könnun frá 2007.

·         Sem fyrr óttuðust flestir að verða fyrir innbroti eða 41%.

·         Meirihluti svarenda sagði áhyggjur sínar af afbrotum vera litlar og segja langflestir þær hafa lítil eða engin áhrif á líf sitt.

·         í könnuninni sögðust 43% svarenda hafa gripið til aðgerða til að verja heimili sitt fyrir afbrotum á árinu 2012 eða fyrr.

·         Rúmlega 23% sögðust hafa orðið fyrir eignaskemmdum árið 2012. Ríflega 14% sögðust hafa orðið fyrir þjófnaði, 7% innbroti, 2,7% sögðust hafa orðið fyrir ofbeldisbroti og 1% kynferðisbroti.

·         Lægra hlutfall (28%) sagðist hafa tilkynnt brot nú en í fyrri könnunum (41%). Af þeim sem urðu fyrir þjófnaði tilkynntu 34% brotið, 51% innbrotið, 27% ofbeldisbrotið og 21% eignaskemmdirnar. 

·         Flestir sögðust ekki hafa tilkynnt vegna þess að brotið hafi ekki verið ekki nægilega alvarlegt. 

      Smellið hér til að lesa könnunina.