4 Mars 2010 12:00

Leit lögreglunnar að Guðbjarna Traustasyni, fanga á Litla-Hrauni sem nú er kominn fram, var víðtæk. Farið var á nærri 30 heimili í tengslum við hana en á tveimur þeirra fundust fíkniefni. Á öðrum staðnum, í fjölbýlishúsi í Kópavogi um kaffileytið í dag,  fannst hálft kíló af marijúana og 20 grömm af kókaíni. Tveir karlar, annar hálfþrítugur og hinn innan við tvítugt, voru handteknir vegna þessa og verða yfirheyrðir í kvöld. Á hinum staðnum, í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði síðdegis í gær, lagði lögreglan hald á 10 grömm af kókaíni og 250 þúsund krónur í peningum sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Á sama stað fundust einnig skotvopn og mikið magn stera. Húsráðandi, karl um þrítugt, var handtekinn vegna málsins.