10 Janúar 2022 11:05

Í liðinni viku voru 19 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu.  Af þeim eru 4 í Sveitarfélaginu Hornafjörður, 4 í Skaftárhreppi,  3 í Rangárþingi og 8 í Árnessýslu.  3 ökumenn sem lögregla hafði afskipti af eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis.  Einn þeirra gisti fangageymslur þar til hann var fær um að gefa skýrslu en hann hafði reynt að koma sér undan sök sinni með því að færa sig í aftursæti bifreiðarinnar þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum.   Játaði brot sitt þegar af honum var runnin áfengisvíman og honum sleppt að skýrslugjöf lokinni.  Öðrum varð það á að missa stjórn á bifreið sinni í Hveradalabrekkunni og lenda þar utan í vegriði og sá þriðji var stöðvaður að morgni dags og kvaðst ekki hafa áttað sig á því að hann væri mögulega að fara of snemma af stað eftir drykkju næturinnar.  Aðrir 3 ökumenn eru grunaðir um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna eða lyfja við akstur bifreiða sinna.   Einn velti bifreið sinni á Suðurlandsvegi skammt frá Landvegamótum og var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.  Ekki talinn alvarlega slasaður.   Annar var stöðvaður við Kotströnd og færður á stöð.   Í bifreið hans fundust kannabisefni í neysluskömmtum.   Sá þriðji stöðvaður í almennu eftirliti á Hellu og færður á stöð á Hvolsvelli til blóðsýnatöku.

Einn ökumaður var kærður fyrir að flytja beltagröfu sem var breiðari en leyft er í almennri umferð á palli bifreiðar án þess að hafa aflað sér undanþágu til slíks.    Annar var kærður fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar.   40 þúsund króna sekt við því broti.

3 slys voru tilkynnt í liðinni viku þar sem fólk féll og slasaðist.   Tvö slysanna urðu í þéttbýli, annarsvegar í Vík og hins vegar á Hvolsvelli en það þriðja varð þann 4. janúar þegar maður í ísklifri við Öxarárfoss féll niður stálið og slasaðist á fæti.    Mikil hálka á vettvangi og voru björgunarsveitir kallaðar til til aðstoðar og að tryggja að flytja mætti sjúklinginn með öruggum hætti í sjúkrabifreið og þaðan á sjúkrahús.   Meiðsl ekki talin alvarleg.

12 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni.   Fæst með meiðslum.    Vörubifreið í bílaflutningi fór út af vegi og valt við Kirkjubæjarklaustur þann 6. janúar.   Mikið tjón á bifreiðinni og á bifreið sem hún flutti.  Ökumaður lemstraður en taldi ekki þörf á aðstoð sjúkraliðs.

Um helgina voru tveir einstaklingar handteknir á Selfossi grunaðir um að hafa verið að dreifa fíkniefnum.   Leit í bifreið sem þeir voru á og heima hjá öðrum þeirra leiddi í ljós nokkuð magn fíkniefna og fjármuni sem annar þeirra kannaðist við að væri afrakstur fíkniefnasölu.     Þeir lausir að frumrannsókn lokinni en málið áfram til rannsóknar og síðar ákærumeðferðar.

Tvö mál er varða ágreining milli skyldra-/tengdra komu upp í vikunni.  Í öðru þeirra er jafnframt til rannsóknar minniháttar líkamsárás milli feðga.   Málin til hefðbundinnar meðferðar með viðkomandi barnaverndaryfirvöldum.

Tvö mál eru til meðferðar eftir vikuna þar sem aðilar sem sæta áttu einangrun vegna Covid smits eru grunaðir um að hafa ekki virt þá skyldu sína.     Hafa nú verið afgreidd yfir til ákærusviðs til ákvörðunar um framhald.