23 Nóvember 2019 09:30
Óhætt er að segja að Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu berist beiðnir og fyrirspurnir um nánast allt á milli himins og jarðar. Sumum er hægt að verða við, en öðrum ekki eins og gengur. Ein af þeim óvenjulegri rataði á borð embættisins á dögunum, en þá hafði erlendur karlmaður á biðilsbuxunum, sem hér var á stuttu ferðalagi með kærustunni, samband og óskaði aðstoðar lögreglunnar við að bera upp bónorðið. Hugmynd ferðamannsins var ekki alveg fullmótuð, en hann vildi þó enda í fangageymslunni og biðja þar sinnar heittelskuðu. Ekki kom þó til þess að hugmyndin væri fullunnin í samráði við lögregluna, því eftir efnislega meðferð var beiðninni hafnað hjá embættinu þótt um margt væri hún áhugaverð. Um ástæður neitunarinnar þarf kannski ekki að hafa mörg orð, en aðstæður í fangageymslunni eru sjaldan eða aldrei rómantískar og starfsemin þar jafnan viðkvæm svo aðeins það sé nefnt til sögunnar.
Ekki var á ferðamanninum að skilja að hann eða kærastan ættu sér einhverja sögu sem tengdist fangageymslum almennt heldur mun hugmynd hans hafa kviknað eftir að hafa skoðað myndir frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Instagram. Eftir afgreiðslu málsins var manninum óskað alls hins besta í þeirri von að hann finndi heppilegan stað fyrir bónorðið. Hvort það tókst er ekki vitað, né heldur hvort kærastan sagði já ef hann þá bar upp bónorðið. Lögreglan vonar samt að það hafi verið raunin og að málið hafi fengið farsælan endir.