16 Janúar 2007 12:00
Fjögur vinnuslys voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Snemma í gærmorgun féll hleri á tvítugan pilt sem var við vinnu sína um borð í togara við Holtabakka. Undir hádegi skarst þrítugur karlmaður á höfði en hann var að vinna á lyftara í Grafarvogi.
Allnokkru síðar barst lögreglu aftur beiðni um aðstoð í Grafarvogi en þá hafði fertugur karlmaður brunnið á höndum og í andliti. Hann var að gera við bensínleka í bifreið en hafði gert hlé á vinnu sinni til að fá sér sígarettu. Þegar maðurinn drap í sígarettunni mynduðust bensíngufur og sprenging varð með fyrrgreindum afleiðingum. Síðdegis slasaðist svo karlmaður á sjötugsaldri í Garðabæ. Hann var að vinna við uppsetningu kælitækis en varð með höndina undir því.