24 September 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að stöðva starfsemi þriggja vínveitingastaða í miðborginni s.l. nótt vegna þess að þeir voru opnir lengur en leyfilegt er. Þegar lögreglumenn í eftirliti komu á staðina eftir kl. 01:00 var starfsemin enn í fullum gangi, bæði áfengissala og tónlist spiluð. Á einum stað reyndi dyravörður að hindra lögreglumenn við störf sín.
Heimilaður veitingatími án takmarkana er að jafnaði til kl. 01:00 virka daga og til kl. 05:30 um helgar. Mikil áhersla er lögð á að leyfishafar virði tímamörkin. Mál vegna þessara staða fara til formlegrar afgreiðslu hjá embættinu og má búast við frekari viðbrögðum af þess hálfu. Mikilvægt er að forsvarsmenn áfengisveitingastaða á höfuðborgarsvæðinu fari í hvívetna eftir skilyrðum leyfanna, s.s. að virða ákvæði um aldurstakmörk, fjölda gesta, bann við útburði áfengis og takmarkanir á hávaða á og við staðina.