23 Júlí 2007 12:00

Karlmaður á miðjum aldri var stöðvaður við akstur í Hafnarfirði um helgina. Í bíl hans var sjö ára gamalt barn sem var ekki með öryggisbelti og stóð aftan við framsætin meðan á akstri stóð. Því miður er þetta tilvik ekki einsdæmi en kæruleysi ökumanna er oft með ólíkindum. Ekki þarf að spyrja að leikslokum ef þessi bíll hefði lent í árekstri.

Notkun bílbelta mætti almennt vera miklu betri en nánast daglega hefur lögregla afskipti af fólki sem spennir ekki beltin. Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir þessar sakir um helgina en í þeim hópi var m.a. 17 ára piltur sem er nýkominn með bílpróf. Sá var tekinn í Árbæ en pilturinn virtist eiga erfitt með að skilja það að honum bæri að nota beltið. Ungi pilturinn lét þó tilleiðast og var með beltið spennt þegar hann hélt af stað á nýjan leik. Það virðist þó hafa verið sýndarmennskan ein því þegar lögregla þurfti að hafa afskipti af sama pilti örskömmu síðar út af öðru umferðarlagabroti var kauði búinn að taka af sér bílbeltið.

Þurfti nánast að beita fortölum til að fá hann til að nota öryggisbeltið aftur. Láti pilturinn sér ekki segjast er ljóst að hann verður sviptur ökuleyfi mjög fljótlega en hann fær einn punkt í ökuferilsskrá í hvert sinn sem hann er tekinn fyrir þetta brot. Foreldrar piltsins verða látnir vita af afskiptum lögreglu og vonandi tekst þeim að láta hann sjá að sér.