3 Nóvember 2018 13:09
Karlmaður og kona eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á vopnaburði í Stangarhyl í Ártúnsholti í Reykjavík klukkan rúmlega hálfellefu í morgun. Þá barst tilkynning um ógnandi mann með skotvopn á fyrrnefndum stað, en vitni fullyrða að einu skoti hafi verið hleypt af. Ekki er talið að vopninu hafi þá verið beint að fólki. Með fylgdi lýsing á manni og konu, meintum gerendum, og ökutæki sem þau voru á. Fólkið var svo handtekið annars staðar í borginni, eða í Skipholti, á tólfta tímanum og bíður það nú yfirheyrslu. Við handtökurnar naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Bifreiðin, sem fólkið var á, var haldlögð, sem og vopnið sem um ræðir, auk skotfæra. Um loftbyssu var að ræða. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.