26 Júlí 2019 15:43

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 23. ágúst á grundvelli almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á vopnuði ráni í austurborginni síðdegis í gær. Tilkynnt var um málið á sjötta tímanum, en fram kom að manni hefði verið ógnað með skotvopni og hann rændur verðmætum. Lögreglan brást skjótt við enda mál sem þessi litin mjög alvarlegum augum og var farið í markvissar aðgerðir sem stóðu yfir fram á nótt. Fjórir voru handteknir í gærkvöld í tengslum við málið, en við aðgerðirnar naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. Þremur mannanna var sleppt úr haldi lögreglu fyrr í dag, en lögð var fram krafa um gæsluvarðhald yfir þeim fjórða eins og áður sagði. Framkvæmdar hafa verið tvær húsleitir í þágu rannsóknarinnar. Skotvopnið, sem reyndist vera eftirlíking af skammbyssu, er í vörslu lögreglu.

Ekki verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.