17 Nóvember 2009 12:00
Það er heldur óskemmtileg reynsla að verða bensínlaus á miðri leið þegar farið er á milli staða. Sérstaklega á þetta við þegar slíkt kemur upp á stofnbrautum en þá er beinlínis hætta á ferðum, ekki síst í skammdeginu. Þrjú mál af þessu tagi komu á borð lögreglunnar um helgina en í öllum tilfellum var um bensínlaus ökutæki að ræða. Eitt stöðvaðist á Vesturlandsvegi, annað á Bústaðavegi og það þriðja á Sæbraut. Þeim sem fyrir þessu verða ber að reyna að koma ökutæki út fyrir akbraut en á því er mikill misbrestur. Stundum er það svo að ökutæki eru skilin eftir ljóslaus á stofnbrautum og jafnvel ekki hirt um að kveikja á neyðarljósum. Oftar en ekki er látið hjá líða að tilkynna um málið til lögreglu og sömuleiðis eru engar ráðstafanir gerðar strax til að fjarlægja ökutæki af vettvangi. Af þessu skapast mjög mikil hætta fyrir aðra vegfarendur og þá er um fátt annað að velja fyrir lögreglu en að láta fjarlægja viðkomandi ökutæki með kranabifreið og á kostnað umráðamanns eða eiganda. Það sama á að sjálfsögðu við um biluð ökutæki sem eru skilin eftir í umferðinni með sama hætti. Í ljósi þessa hvetur lögreglan ökumenn til að sýna meiri ábyrgð og stuðla þannig að eigin öryggi sem og annarra.