2 Nóvember 2020 10:32

Nú er mikið lagt upp úr því að fylgja sóttvörnum og ljóst að almenningur er að stæðstum hluta að taka ábyrgð á því verkefni.   Það er mjög ánægjulegt og tilefni til að hrósa fólki fyrir að gera vel í þessum efnum.   Árangurinn mun koma hratt í ljós þegar vel er unnið og skynsamlegt að allir taki þátt nú og þannig skapist möguleiki á að hafa samfélagið opnara þegar nálgast aðventuna.   Einhverjir hafa ekki viljað fara að þeim reglum sem settar hafa verið en slíkt er undantekning enda þótt þeirra raddir hafi á stundum fengið meira vægi í umfjöllun samfélagsmiðla og í framhaldi af því fjölmiðla.  Þetta er mjög einfalt, tökum höndum saman og verum með í þessu átaki sem meiri hluti þjóðarinnar er að vinna í, fylgjum reglunum, þvoum hendur, sprittum þær og notum grímur þar sem það á við.   Við erum saman í þessu og árangurinn fer ekki eftir því hvað þríeikið segir heldur hvað þú gerir. Við getum þetta saman.

6 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar í liðinni viku. Slíkt er ekki alveg ókeypis því sektin við brotinu nemur 40 þúsund krónum.

38 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt á sama tímabili.   Þrír þeirra eru á 130 – 139 km/klst hraða og einn á 140 km/klst hraða og er sá þar með 150 þúsund krónum fátækari. Hann var á ferðinni á Mýrdalssandi líkt og flestir þeir sem hraðast óku.   Einn var stöðvaður þar sem hann ók bifreið sinni um vinnusvæði á Þjóðvegi 1 skammt frá Ingólfsfjalli þar sem hraði er tekinn niður í 50 km/klst en bifreið hans mældist á 96 km/klst hraða.    Hann lýkur máli sínu með greiðslu sektar upp á 80 þúsund krónur.

Tveir ökumenn, sem lögregla hafði afskipti af, eru grunaðir um að hafa verið að aka bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis í liðinni viku.

Að morgni dags um miðja síðustu viku var maður handtekinn eftir að vegfarandi hafði séð til hans baxa með borðsög af stærri gerðinni á reiðhjóli á Selfossi.   Sögina reyndist hann hafa tekið ófrjálsri hendi á verkstað í íbúðahverfi í bænum og reiðhjólið, sem hann hafði losað sig við þegar að var komið, var að líkindum tekið ófrjálsri hendi líka.   Þegar betur var að gáð reynist hann vera með í fórum sínum muni af 5 mismunandi stöðum.   Hann kannaðist við brot sín og var að auki yfirheyrður vegna tveggja annarra mála sem bárust frá nærliggjandi umdæmum. Maðurinn er á fertugs aldri og því ekki um bernskubrek að ræða.   Mál þessi teljast upplýst og fara nú til ákærusviðs til útgáfu ákæru.