22 Febrúar 2022 12:17

Hafin er vinna við að losa bíla sem teppa mokstur á Hellisheiði og í Þrengslum.   Byrjað verður á því að losa þá bíla sem eru í Svínahrauni en síðan farið í Þrengslin og endað á Hellisheiðinni.  Um er að ræða samstarfsverkefni viðbragðsaðila á Suðurlandi og í Reykjavík með Vegagerðinni.  Vinnan er tafsöm og því ljóst að ekki eru líkur á að opnað verði fyrir umferð þar um fyrr en síðla dags.   Búið er að opna Suðurstrandaveg fyrir umferð.

Mikið tjón varð á Hamarshöllinni í Hveragerði í morgun þegar gat kom á húsið og það rifnaði.   Reynt hefur verið að bjarga lausamunum í skjól en ekkert verður átt við dúkinn sjálfan meðan veður er eins og það er.

Þá fauk þak af íbúðarhúsi á sveitabæ í Rangárþingi ytra nánast í heilu lagi með sperrum og öllu því sem fylgir.  Húsið er gamalt og  ekki búseta í því að staðaldri og engin var í húsinu þegar atvikið átti sér stað.

Á þriðja tug annarra verkefna hafa borist viðbragðsaðilum í morgun víðsvegar um vestanvert Suðurlandið og björgunarsveitir í Sveitarfélaginu Hornafirði sinntu foktjóni á Mýrum og aðstoðuðu við að tryggja báta sem voru að losna í höfninni.

Rafmangstruflanir hafa verið víða um Suðurlandið og hafa björgunarsveitir aðstoðað starfsmenn í orkugeiranum við þeirra mikilvægu störf.  Snjóbíll frá Selfossi er til aðstoðar við vinnuflokk á Búrfellssvæðinu.  Í nótt var fengin snjóbíll af höfuðborgarsvæðinu til flutnings á mannskap í viðgerðarvinnu á Hellisheiði og vel búin Unimoq sendur til aðstoðar frá Hellu í annað slíkt verkefni við Hvolsvallarlínu 1.     Enn er unnið að viðgerðum og bilanaleit og hægt að fylgjast nánar með því á vef viðkomandi veitna.

Samstarf viðbragðseininga hefur gengið vel og gildin „Eitt lið – eitt afl“ á vel við nú þar sem allir sameinast um að aðstoða þá sem eiga í vanda.