Lögregluskólinn hefur milligöngu um að senda lögreglumenn og aðra starfsmenn lögreglunnar á margskonar námskeið erlendis. Kveður þar mest af námskeiðum á vegum CEPOL (European Police College Network) en það eru samtök lögreglumenntastofnana allra Evrópusambandslanda. Samtökin annast menntun og þjálfun yfirmanna í lögreglu og voru stofnuð af ráðherraráði Evrópusambandsins (ESB) í desember 2000.

CEPOL er framhaldsskóli lögreglu án sérstakrar staðsetningar og er skólastjóra Lögregluskóla ríkisins og skólastjóra Politihøgskolen í Noregi sérstaklega boðið að sækja fundi skólaráðsins sem áheyrnarfulltrúar en skólaráðið samanstendur af skólastjórum lögregluskóla aðildarlanda ESB.

Skólastjóri þess ESB lands sem á hverjum tíma fer með formennsku (sex mánuðir í senn) er formaður skólaráðs þann tíma sem það varir.

CEPOL-námskeið eru oftast samstarfsverkefni tveggja eða fleiri lögreglumenntastofnana sem e.a. skiptast á að hýsa þau í heimalandi sínu. Meðal helstu viðfangsefna sem tekin eru fyrir eru það sem á ensku er kallað “cross-boarding-crimes” innan Evrópu og alþjóðleg glæpastarfsemi almennt.

Með því að smella á vefslóðina http://www.cepol.europa.eu má nálgast frekari upplýsingar um CEPOL, m.a. sjá yfirlit yfir námskeið á vegum samtakanna.

Önnur samtök lögregluskóla, AEPC (The Association of European Police Colleges), bjóða einnig upp á talsverðan fjölda námskeiða. Nánari upplýsingar um AEPC er að finna á vefslóðinni http://www.aepc.net/.

Sérstök athygli er vakin á að Lögregluskóli ríkisins hefur milligöngu um að útvega sæti á námskeiðum sem CEPOL eða AEPC standa fyrir og er ekki hægt að sækja þangað milliliðalaust um sæti á námskeiðum.

Ef áhugi er fyrir því að senda lögreglumenn, eða aðra starfsmenn lögreglu, á námskeið á vegum CEPOL eða AEPC þarf að senda Lögregluskóla ríkisins erindi þess efnis.