Markmið bóknáms

Markmiðið með bóknáminu er að nemandi í grunnnámi við Lögregluskóla ríkisins auki stöðugt við þekkingu sína, færni og líkamlegan styrk þannig að hann í ríkari mæli, með auknu sjálfstæði og góðri tilfinningu fyrir mismunandi aðstæðum, geti sinnt allri almennri löggæslu í samræmi við þær væntingar sem samfélagið og lögreglan gera á hverjum tíma til góðs lögreglumanns.

Að auki er það markmið námsins að nemandinn öðlist skilning á því að lögreglan á Íslandi starfar við fjölbreyttar aðstæður og sinnir margvíslegum verkefnum. Þannig skal nemandinn, með réttu mati á aðstæðum, viðeigandi málfari og líkamstjáningu, vera reiðubúinn til að leysa ólík verkefni með því að sýna frumkvæði, hugrekki og röggsemi ásamt því að nota valdbeitingarheimildir og réttarfarsúrræði lögreglunnar á réttan hátt.

Markmið starfsnáms

Markmiðið með starfsnáminu er að nemandi í grunnnámi við Lögregluskóla ríkisins fái innsýn í lögreglustarfið og öðlist skilning á því; að hann þjálfist og þroskist þannig að hann geti leyst viðfangsefni sjálfstætt og að hann fái skilning á samhenginu milli fræðilegu kennslunnar í bóknáminu og lögreglustarfsins í raun.

Sérstök áhersla skal lögð á að hegðun og framkoma nemandans sé í samræmi við stöðu hans sem lögreglunema í starfsnámi og væntanlegs lögreglumanns; að hann þjálfist í að starfa og meta aðstæður sjálfstætt og læri að taka réttar og sjálfstæðar ákvarðanir.