Námsgreinar í grunnnámi Lögregluskóla ríkisins skiptast í eftirfarandi meginþætti

Lögfræði

Nemendur skulu fræddir um íslenskt réttarkerfi og þeim veitt undirstöðuþekking í refsirétti og sakamálaréttafari, auk þess sem farið er í helstu lög og reglur þar sem gert er ráð fyrir afskiptum, eftirliti eða stjórnun af hálfu lögreglu.

Lögreglufræði

Fræða skal nemendur um sögu, skipulag og uppbyggingu lögreglu hér á landi og um öll meginatriði sem lúta að framkvæmd almennri löggæslu þannig að þeir öðlist innsýn í helstu þætti almenns lögreglustarfs. Áhersla er lögð á framkomu lögreglumanna og samskipti við almenning. Einnig skal fræða nemendur um umferðarlög og reglur, þeir skulu öðlast góða þekkingu á málaskrá lögreglu og öðlast færni í að gera góðar almennar lögregluskýrslur. Kennd eru grunnatriði í lögreglurannsóknum þannig að nemendur séu meðvitaðir um hlutverk lögreglu þar sem rannsóknar er þörf. Sérstök áhersla er lögð á umgengni á vettvangi slysa og afbrota og að nemendur viti mikilvægi þess að finna, vernda og meðhöndla öll sönnunargögn.

Sérgreinar

Undirbúa skal nemendur undir að takast á við erfiðar tilfinningar og hugsanir sem þeir geta upplifað í lögreglustarfinu. Þeir fá fræðslu um áföll og streitu en einnig bjagaðar hugsanir og algeng tilfinningaviðbrögð. Nemendur skulu öðlast þekkingu á sálfræðilegum þáttum lögreglustarfsins í sem víðustum skilningi. Nemendur skulu ná mjög góðri færni í íslensku máli, bæði talmáli og ritmáli, þannig að þeir geti tekið virkan þátt í samræðum, tjáð skoðanir sínar og hugmyndir af öryggi og ritað villulausan texta á einföldu, skipulögðu og skýru máli. Nemendur skulu þekkja meginatriði fyrstu hjálpar og geta brugðist rétt við þegar slys eða bráðaveikindi verða. Þeir skulu geta beitt endurlífgun, búið um minni háttar áverka og hlúð að slösuðum með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Nemendur skulu þekkja þá ríku mannréttindavernd sem er hér á landi og öðlast næga þekkingu til að koma auga á hvers konar mannréttindabrot. Nemendur skulu kunna skil á siðareglum íslensku lögreglunnar og þjálfast í að efla og viðhalda siðgæði sínu, með það að markmiði að það endurspeglist í hegðun þeirra í lögreglustarfi.

Akstursþjálfun

Nemendur skulu þjálfast í góðakstri, tileinka sér rétt hugarfar varðandi fyrirmyndarhlutverk lögreglunnar í umferðinni og temja sér góða umgengni og umhirðu á lögreglutækjum. Gera skal nemendur færa til að aka ökutækjum lögreglunnar með forgangi og þeir skulu öðlast skilning á þeirri ábyrgð sem fylgir forgangsakstri, sem og áhrifum hans á umhverfið og umferðaröryggi.

Líkamsþjálfun

Aukið skal við líkamlegt þrek, styrk og liðleika nemenda og þar með hæfileika þeirra til að takast á við lögreglustarfið. Nemendur eiga að vera færir um að framkvæma handtökur af öryggi jafnvel þó að fyrirvaralaus mótspyrna sé veitt og geta haldið handteknum manni af öryggi. Einnig eiga nemendur að vera færir um að verjast árásum og geta losað sig úr tökum. Nemendur eiga að vera færir um að beita öllum valdbeitingatækjum lögreglunnar af öryggi og þekkja allar reglur þar að lútandi. Nemendur eiga að geta starfað sem hópur í hinum ýmsu lögregluaðgerðum. Sundþol nemenda skal aukið og þeir eiga að verða færir um bjarga sjálfum sér og öðrum úr sjó og/eða vatni.

Verkleg þjálfun

Nemendur skulu þjálfaðir í því að nýta þá bóklegu fræðslu sem þeir hafa fengið í grunnnáminu og þjálfast í úrlausn verkefna þar sem reynir á kunnáttu þeirra í beitingu réttarreglna, beitingu valds, framkomu og framkvæmd lögreglustarfa almennt.

Valdbeiting og vopnaþjálfun

Með sama hætti og almennt útkallslið lögreglu, flokkur 3 samkvæmt stefnumótun embættis ríkislög­reglustjóra, skal þekking nemenda á reglum og heimildum varðandi valdbeitingu lögreglumanna aukin og þeim veitt innsýn og þjálfun í beitingu skotvopna lögreglunnar.