Við Lögregluskóla ríkisins starfar sérstök nefnd, valnefnd, sem metur hvort umsækjendur um skólavist fullnægi inntökuskilyrðum, hún ákveður hverjir skulu hefja nám við skólann sem nýnemar og ákvarðanir hennar um val á nemendum eru endanlegar.

Nefndina skipa fimm menn, einn tilnefndur af innanríkisráðherra, einn af ríkislögreglustjóra, einn af Lögreglustjórafélagi Íslands, einn af Landssambandi lögreglumanna og einn af skólastjóra Lögregluskóla ríkisins og skal sá vera formaður nefndarinnar.

Nefndin skal leitast við að velja til náms þá hæfustu úr hópi umsækjenda á hverjum tíma. Einkum skal þess gætt að velja ekki til lögreglunáms mann, sem ætla má að eigi erfitt með að sinna lögreglustarfi svo að vel fari, svo sem vegna óreglusemi, fjárhagsvanda, vegna þess að hann hefur hlotið dóm fyrir brot á refsilöggjöf eða hann hefur sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta.

Nefndin metur fyrst hverjir umsækjenda uppfylla öll almenn inntökuskilyrði. Að því búnu lætur hún hæfa umsækjendur undirgangast inntökupróf og önnur próf sem rétt þykir að framkvæma. Nefndin getur auk þess óskað eftir frekari gögnum frá umsækjendum eða um þá og að þeir sæti sérstakri læknisskoðun.

Umsækjandi ber kostnað af umsókn um skólavist, nema þann kostnað sem leiða kann af ákvörðunum skólans og nefndarinnar um sérstaka gagnaöflun.

Póstáritun valnefndarinnar er Valnefnd Lögregluskóla ríkisins, Krókhálsi 5b, 110 Reykjavík. Netfang valnefndarinnar er valnefnd@logreglan.is.